Að selja sjálfstæðisstefnuna
Líkt og fyrirtæki selja vörur eða þjónustu og fá fyrir það greitt þá eru stefnur stjórnmálaflokka söluvara þeirra. Markmið stjórnmálaflokks er að berjast fyrir hugsjónum og er það gert með því að bjóða upp á skýra stefnu og hafa öflugt fólk sem talar fyrir stefnunni og framfylgir henni.
Sjálfstæðisstefnan
Sjálfstæðisstefna Sjálfstæðisflokksins er nær hundrað ára gömul og hefur staðist tímans tönn. Það er ekki að ástæðulausu. Stefnan er sterk og af henni getum við verið stolt. Á grunni sjálfstæðisstefnunnar hefur íslenskt samfélag verið byggt upp í fremstu röð meðal þjóða. Sjálfstæðisstefnan snýst um frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar, frjálst framtak, frjálsa verslun og frelsi einstaklinganna til að stuðla að verðmætasköpun fyrir samfélagið. Samtímis leggur sjálfstæðisstefnan áherslu á að tryggja afkomu þeirra og verja velferð þeirra sem eiga undir högg að sækja í lífinu og gæta þess að enginn verði útundan. Sjálfstæðisstefnan er með hagsmuni allra stétta fyrir augum.
Samkeppni um sjálfstæðisstefnuna
Líkt og fyrirtæki þurfa stöðugt að keppa um að ná til viðskiptavina og leggja sig fram við að gera betur en samkeppnisaðilar, gildir hið sama um stjórnmálaflokka. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki með einkarétt á sjálfstæðisstefnunni og aðrir flokkar geta líkt eftir stefnunni. Það er skiljanlegt að aðrir flokkar reyni að gera það því stefnan er góð og stendur fyrir sínu. Því skiptir miklu máli að forysta flokksins, kjörnir fulltrúar á Alþingi og í sveitarstjórnum og hin öfluga grasrót sem flokkurinn býr yfir sýni kjósendum, á hverjum degi, að sjálfstæðisstefnan sé hin eina rétta og að Sjálfstæðisflokkurinn framfylgi henni. Hér eru sóknarfæri fyrir flokkinn.
Markaðsmál
Líkt og fyrirtæki markaðsetja vöru sína með ýmsum hætti, þá þurfa stjórnmálaflokkar að gera hið sama. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að ná til fólks á öllum aldri og þarf að markaðssetja sjálfstæðisstefnuna með ólíkum aðferðum, á ólíkum miðlum og með fjölbreyttum hætti. Koma þarf upplýsingum um þau mikilvægu störf sem kjörnir fulltrúar flokksins vinna daglega að betur á framfæri, þannig að almenningur átti sig á hve þýðingarmikið það er að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Hér eru sóknarfæri fyrir flokkinn.
Grasrótin
Líkt og fyrirtæki vilja hafa sem flesta fylgjendur, þá skiptir lykilmáli fyrir stjórnmálaflokk að eiga sína fylgjendur. Fólk sem talar fyrir stefnunni og leggur sig fram fyrir flokk sinn, allt árið um kring, launalaust.
Grasrót Sjálfstæðisflokksins er öflug og samanstefndur af fólki sem hefur í gegnum tíðina verið ötult við að halda fundi og ýmsa viðburði um landið. Fjölmörg sjálfstæðisfélög, landssambönd, ráð og málefnanefndir vinna dýrmætt starf. Þegar kemur að kosningabaráttum þá er það grasrótin sem vinnur þrekvirki fyrir flokkinn. Innra starf Sjálfstæðisflokksins skiptir miklu máli. Við getum sótt enn frekar fram, fengið fleira fólk til liðs við flokkinn, aukið samstarf sjálfstæðisfélaga víða um land, virkjað krafta einstaklinga, skipulagt starf flokksins betur og skapað meiri stemningu. Að fólk finni að það á heima í flokknum. Hér eru sóknarfæri fyrir flokkinn.
Skipulag og stolt
Líkt og fyrirtæki þurfa að hafa kjark til að gera breytingar á skipulagi sínu, þá þurfa stjórnmálaflokkar að gera hið sama. Fyrirtæki geta verið aldargömul en með því að vera hreyfanleg og síung í anda halda þau sér í fremstu röð. Sjálfstæðismenn eiga að vera óhræddir við að gera breytingar á starfi flokksins til móts við nýja tíma. Forysta, kjörnir fulltrúar, skrifstofa og grasrót þurfa að vinna náið saman. Flokkurinn þarf alltaf að vera tilbúinn í kosningar. Þá skiptir miklu máli að fólk sé stolt af flokknum og sjálfstæðistefnunni og sé ófeimið við að lýsa því yfir að það kjósi Sjálfstæðisflokkinn. Hér eru sóknarfæri fyrir flokkinn.
Tímamót og tækifæri
Líkt og fyrirtæki þurfa ávallt að horfa til þess með hvaða hætti þau geta sótt enn frekar fram þá gildir hið sama um stjórnmálaflokka. Grunnstefi sjálfstæðisstefnunnar þarf ekki að breyta en við þurfum að huga að því hvernig við framfylgjum sjálfstæðisstefnunni, markaðssetjum stefnuna og vinnum að enn öflugra innra starfi.
Það eru tímamót hjá Sjálfstæðisflokknum þar sem við kjósum okkur nýjan formann eftir að Bjarni Benediktsson, sem hefur byggt upp mikla hagsæld á Íslandi síðustu 16 árin, lætur af embætti sem formaður. Vil ég þakka honum fyrir hans störf.
Líta þarf á tímamót sem tækifæri. Nú kjósum við nýja forystu sem þarf að horfa til framtíðar og grípa þau fjölmörgu sóknarfæri sem flokkurinn hefur þannig að hægt sé að selja sjálfstæðisstefnuna enn frekar.
Það er stórkostlegt að finna kraftinn í sjálfstæðismönnum og hve tilbúið fólk er í stórsókn. Nú er landsfundur fram undan, þar sem við tölum um tækifærin, ræðum málefnin, skerpum á áherslum okkar, kjósum öfluga forystu, fylkjum okkur saman og gleymum því ekki að hafa gaman.
Því eins og góður sjálfstæðismaður frá Hólmavík sagði ávallt ,,það verður að vera gaman, annars er svo leiðinlegt.”