Um mig

Nánar um mig

Sigþrúður Ármann


Fjölskylduhagir og uppruni
Ég er 44 ára, gift Jóhannesi Egilssyni og saman eigum við þrjú börn, Ernu Maríu fædda 2005, Kristján Ágúst fæddan 2010 og Önnu Maríu fædda 2015. Við fjölskyldan búum í Garðabæ. Ég er fædd og uppalin í heimi viðskipta. Foreldrar mínir, Anna María Kristjánsdóttir og Ágúst Ármann, hafa verið i atvinnurekstri alla sína tíð og hef ég lært mikið af þeim. Sjálf er ég í atvinnurekstri í dag. Ég er einn eigenda og stjórnarformaður framleiðslufyrirtækis í Hafnarfirði og sit í stjórnum nokkurra annara félaga. Það skiptir máli að sýna eldmóð, virkja kraftinn, fá nýjar hugmyndir og koma þeim í framkvæmd. Vinnudagur fólks í atvinnurekstri er langur og það þarf oft að standa vaktina meira og minna frá morgni til kvölds. Móðurafi minn, Kristján Jónsson, stofnaði og rak niðursuðuverksmiðju á Akureyri. Þar starfaði ég sem unglingur. Það var mjög lærdómsríkur tími og ómetanlegt að hafa fengið tækifæri til að vinna í matvælafyrirtæki hans. Afi var alltaf mættur klukkan 6 á morgnana og fór síðastur heim á kvöldin.

Ég er lögfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands, með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og hef stundað stjórnendanám í Barcelona (IESE Business School) og í Shanghai (CEIBS – China Europe International Business School).

Jafnréttismál
Í gegnum tíðina hef ég látið mig jafnréttismál miklu varða. Ég trúi því að með því að stuðla að jafnrétti er lagður grunnur að velferð einstaklinga, fjölskyldna, atvinnulífs og samfélagsins alls.

Vettvangur umræðna
Árið 2006 var ég ein þeirra sem átti frumkvæði að því að stofna EXEDRA sem er vettvangur umræðna fyrir öflugan hóp kvenna. Á þessum tíma var ég að vinna sem lögfræðingur hjá Viðskiptaráði Íslands og var í reglulegum samskiptum við Alþingi þar sem ég skrifaði umsagnir um lagafrumvörp. Mér fannst vanta meiri skilning á milli atvinnulífsins og stjórnmálanna.

Við tókum okkur því saman þrjár vinkonur og stofnuðum EXEDRA og síðar EXEMPLA (fyrir yngri konur) til að stuðla að umræðu þvert á atvinnugreinar um fjölbreytt málefni til að auka skilning á milli stjórnmála, opinbera geirans, atvinnulífsins, samtaka, listaheimsins, mennta- og heilbrigðismála. Í 15 ár höfum við tekið fyrir fjölbreytt viðfangsefni og rætt þau á málefnalegan og uppbyggilegan hátt. Ávinningurinn af þessum samtölum hefur verið mikill.

Samfélagsmál
Ég brenn fyrir samfélagsmálum og finnst afar gefandi að eiga góð samskipti við fólk. Ég hef komið að verkefnum sem hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Ég er ein þeirra sem átti frumkvæði að hvatningarátakinu ,,Takk fyrir að vera til fyrirmyndar” tileinkað frú Vigdísi Finnbogadóttur og íslensku þjóðinni í tilefni þess að þrjátíu ár (2010) og fjörutíu ár (2020) voru liðin frá því að Vigdís var kjörin forseti, fyrst kvenna í heiminum. Árið 2008 leiddi ég SÚK markað sem hafði það að markmiði að byggja skóla fyrir konur og börn í Jemen á vegum Jóhönnu Kristjónsdóttur heitinnar. Einnig hef ég komið að skipulagi og haldið erindi á leiðtoganámskeiðum fyrir konur.

Útivist
Áhugamál mín eru útivist í fjölbreyttri mynd; fjallgöngur, hlaup og skíði. Þá hef ég stundað Boot Camp og jóga síðustu ár. Fyrir fjórum árum stofnaði ég ,,Club 100“ sem hefur það að markmiði að hvetja fólk til að hreyfa sig 100 sinnum á 120 daga tímabili, allt árið um kring. Hefur þetta haft mjög hvetjandi áhrif á okkur sem erum í hópnum og veitt okkur aukinn kraft til að láta til okkar taka.

Smíðað af TGS 2021