Við eigum að geta valið hvar við búum, hvernig við ferðumst á milli staða, hvar við göngum í skóla eða leitum eftir læknisþjónustu rétt eins og við veljum hverju við klæðumst og hvar við verslum. Val er orð sem skiptir máli í þessu samhengi. Vali fylgir vald. Með vali færist valdið til einstaklinganna. Það hlýtur því að vera verkefni stjórnmálanna að auka val fólksins. Það að hafa val um þjónustu þýðir ekki að þú fáir ekki þjónustu. Þjónustan er í boði fyrir alla. Fólk þarf að hafa góða valkosti þegar kemur að mennta- og heilbrigðismálum. Samkeppni í hvaða mynd sem hún er hreyfir við kerfinu. Þegar ekki eru einstaklingar eða verkefni í áskrift, heldur valkostir og möguleikar á að leita annað, þá aukum við metnaðinn, framþróun og um leið gæðin. Það má ekki vanmeta mikilvægi ólíkra valkosta og frelsið til að velja. Valið gerir okkur líka ánægðari. Það að vita að við höfum val um tvo eða fleiri kosti getur eitt og sér gert okkur ánægðari með það sem við höfum. Þegar við vitum að við getum farið, mótmælt eða kosið með fótunum, er í eðli okkar mannanna að verða sáttari. Það á enginn að vera fastur.

Valkostum má ekki fækka með aldrinum
Við þurfum að endurhugsa og endurmeta. Við lifum á tímum þar sem samfélagsbreytingar eru ekki bara djúpstæðar heldur ganga þær yfir á sívaxandi hraða.Í því felst mikil áskorun en jafnframt tækifæri. Tækifærin felast ekki síst í möguleikum velferðartækni en með henni getum við aukið þjónustuna og um leið lækkað kostnað. Þetta skiptir máli. Við megum ekki alltaf gera allt eins, oftast af þeirri ástæðu að það hefur alltaf verið gert þannig. Hugsum út fyrir boxið og spyrjum spurninga. Annars verður engin þróun. Við verðum að hugsa í nýjum lausnum. Þjóðin er að eldast og fólk verður eldra en áður. Af hverju þykir okkur eðlilegt að þegar fólk er komið á efri ár fækki valkostunum. Eldri borgarar verða að hafa val og þar með vald til að taka eigin ákvarðanir. Gleymum heldur ekki að á endanum bitnar léleg þjónustu á þeim sem síst skyldi, þeim sem þurfa að nýta sér þjónustuna og hafa ekki val um annað.

Smíðað af TGS 2021