Öflugar og mikilvægar atvinnugreinar eins og ferðaþjónustan og sjávarútvegurinn byggja á hreinni ímynd Íslands. Við eigum því mikið undir sem þjóð og eigum að vera til fyrirmyndar þegar kemur að umhverfis- og loftlagsmálum. Saman eigum við að skapa framtíðarsýn sem stuðlar að umhverfis- og efnahagslegri sjálfbærni til framtíðar.

Umhverfið og verðmætasköpun
Samkeppnisforskot okkar er græn orka og hana eigum við að nýta í meiri mæli til uppbyggingar atvinnulífs á Íslandi. Íslensk framleiðsla er verðmætari og umhverfisvænni þegar hún er byggð á umhverfisvænum orkugjöfum. Við þurfum að auka innlenda framleiðslu og fullvinna vörur í meiri mæli hér á landi. Einnig eigum við að laða erlendar fjárfestingar til landsins til að nýta græna orku enn frekar. Með endurnýjanlegri orku aukum við verðmætasköpun hér á landi.

Innviðir og fjárhagslegir hvatar
Við þurfum að byggja upp kerfi sem styður við hringrásarhagkerfið og eykur sjálfbærni. Við höfum öfluga innviði en getum gert betur. Við þurfum að efla innlenda endurvinnslu og auka endurnýtingu. Taka ábyrgð á eigin úrgangi, endurnýta og endurvinna það sem hægt er enda leynast þar verðmæti en ekki bara úrgangur. Hér þurfum við að treysta á einkaframtakið, styðja við uppbyggingu atvinnulífsins og tryggja að virðiskeðjan styrkist hér á landi og störfum fjölgi. Fjárhagslega hvata þarf að nýta meira og þeir þurfa að beina málum í þann farveg að af þeim hlotnist fjárhagslegur og umhverfislegur ávinningur. Þannig græða allir.
Höfum líka í huga að með því að auka umhverfisvitund okkar og gera betur í umhverfis- og loftlagsmálum erum við ekki aðeins að auka lífsgæði komandi kynslóða heldur aukast lífsgæði okkar sem nú lifum verulega. Við skulum því endurhugsa, endurmeta, endurnýta – og þegar við á endurvinna.

Smíðað af TGS 2021