Stefnumál

Þetta eru málin sem ég brenn fyrir

Öflugt atvinnulíf er grundvöllur að grunnstoðum samfélagsins

Atvinnulífið leggur grundvöllinn að grunnstoðum samfélagsins sem eru menntakerfið, heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið, samgöngur, innviðir og menning. Atvinnulífið er forsenda framþróunar og hagsældar. Öflugt atvinnulíf er því hagur okkar allra.

Það er atvinnulífsins að leiða vöxt á vinnumarkaði og fjölga störfum

Við þurfum að skapa hvetjandi umhverfi fyrir fólk og fyrirtæki. Það gerist með auknu frelsi og lágum sköttum. Við þurfum að auka verðmætasköpun með öflugri innlendri framleiðslu og treysta stoðir útflutningsfyrirtækja því að þar liggur grunnurinn að gjaldeyrisöflun landsins. Vextir þurfa að vera lágir og verðbólga innan markmiða, þannig að við náum að halda stöðugleika til lengri tíma. Stöðugleiki er forsenda fyrir því að hægt sé að setja markmið til lengri tíma og laða að erlendar fjárfestingar.

Eldri borgarar

Stór hópur þeirra sem komnir eru á eftirlaun býr yfir mikilli reynslu og þekkingu og hefur bæði vilja og getu til þess að nýta hæfileika sína og þekkingu sjálfum sér og samfélaginu til hagsbóta. Miða þarf starfslok við færni en ekki aldur. Auka þarf fjölbreytta valkosti til að koma til móts við þarfir hvers og eins þegar aðstæður breytast. Huga þarf að búsetuformi sem væri millistig milli þess að búa á eigin heimili og dvalar á hjúkrunarheimili. Nýta þarf velferðatækni til að auka þjónustu t.a.m. með skjáheimsóknum og möguleika á fjarlækningum. Það þarf að móta heildstæða stefnu í málefnum eldri borgara. Hér er um að ræða risavaxið þjóðfélagsverkefni sem ekki má ýta til hliðar.

Bætum samgöngur og treystum innviði

Það er kraftur í Kraganum. Hér eru öflug fyrirtæki og mikil íbúauppbygging. Við þurfum að bæta samgöngur og treysta innviði. Í stórum framkvæmdum þarf að auka samvinnu ríkis og einkaaðila.

Minni umsvif his opinbera

Umsvif í rekstri hins opinbera hafa aukist of mikið. Það þarf að minnka umsvif í rekstri hins opinbera og útvista verkefnum í meiri mæli. Við eigum að vera óhærdd við að útvista verkefnum til einkaaðila sem hið opinbera kaupir þjónustu af. Með þeim hætti eflum við atvinnulífið, styðjum við nýsköpun, virkjum mannauðinn og förum betur með fjármuni. Það er hagur allra.

Stafræn vegferð

Hið opinbera á að halda áfram á stafrænni vegferð, í því felst aukin þjónusta, minna flækjustig og tímasparnaður fyrir fólk og fyrirtæki.

Græn orka til uppbyggingar atvinnulífs

Samkeppnisforskot okkar er græn orka. Við þurfum að nota græna orku til uppbyggingar atvinnulífs hér á landi. Íslensk framleiðsla er verðmætari og umhverfisvænni þar sem hún er byggð á endurnýjanlegri orku. Við þurfum að auka innlenda framleiðslu og fullvinna vörur hérlendis. Einnig eigum við að fá erlendar fjárfestingar til landsins til að nýta græna orku hér. Með endurnýjanlegri orku aukum við verðmætasköpun hér á landi.

Umhverfis- og loftlagsmál

Ísland á að vera til fyrirmyndar þegar kemur á umhverfis- og loftlagsmálum. Við eigum mikið undir sem þjóð enda byggir ferðaþjónustan, sjávarútvegurinn og aðrar mikilvægar atvinnugreinar á hreinni ímynd. Það er mikilvægt að við aukum sjálfbærni og eflum hringrásarhagkerfið.

Menntun, heilbrigði og nýsköpun

Aðgangur að framúrskarandi og fjölbreyttri menntun og góðu heilbrigðiskerfi er lykilatriði fyrir samfélagið allt. Við þurfum að bjóða upp á valfrelsi með þeim hætti að fjármagn fylgi einstaklingi. Með þeim hætti eykst samkeppni á milli aðila sem stuðlar að betri þjónustu og meiri fjölbreytni. Við eigum að efla nýsköpun á öllum sviðum. Framþróun byggir á nýsköpun.

Framtíðarsýn fyrir komandi kynslóðir

Við lifum á tímum þar sem samfélagsbreytingar eru ekki bara djúpstæðar heldur ganga þær yfir á sívaxandi hraða. Ný samskiptatækni, gjörbreytt heimsmynd, nýjar áskoranir og tækifæri kalla á að stjórnmálaflokkar standi stöðugt vaktina. Loftlagsmál og umhverfisvá fá meira vægi, ekki síst hjá yngri kynslóðum og afstaða til kynjajafnréttis, frelsis- og mannréttindamála skiptir nýjar kynslóðir meira máli en áður. Við þurfum að geta endurhugsað, endurmetið og endurnýtt. Við þurfum skýra framtíðarsýn fyrir komandi kynslóðir.

Nýir tímar kalla á ný vinnubrögð

Það skiptir máli að á Alþingi fari fram uppbyggilegt og málefnalegt samtal. Rödd atvinnulífsins þarf að heyrast inn á Alþingi. Saman þurfum við að skapa framtíðarsýn og stuðla að efnahagslegri sjálfbærni til framtíðar.

Frelsi einstaklingsins og jafnrétti

Grunngildi Sjálfstæðisflokksins eru frelsi einstaklingsins og jafnrétti. Þessi mál eru mér hugleikin. Með því að stuðla að frelsi einstaklingsins og jafnrétti er lagður grunnur að velferð einstaklinga, fjölskyldna, atvinnulífs og samfélagsins alls.

Breytt heimsmynd – aukin tækifæri

Heimsmyndin er gjörbreytt . Áður var Ísland stökkpallur milli austurs og vesturs, nú er landið miðdepill norðurslóða. Í því liggja fjölmörg tækifæri sem við eigum að nýta.

Smíðað af TGS 2021